Lífið fyrir utan gluggann

Hávært borhljóð ruddi sér leið inn í væran, draumlausan svefninn. Það gafst ekkert rúm til að stoppa við í millibilsástandinu; þegar ekkert er að en meðvitundin samt nógu mikið til staðar til þess að halda að lífið sé fullkomið. En lífið í 101 býður ekki upp á þessháttar munað. Nágranninn, einn af þeim hundrað sem bjó í óræðri fjarlægð, nógu langt frá til þess að hún vissi ekki hvar hann var en nógu stutt frá til þess að borhljóðið væri ærandi, byrjaði dag þrjúþúsundfimmhundruðsjötíuogsex (að henni fannst) í röð á þessari óvelkomnu vekjaraklukku. Hversu mikla steypu var hægt að brjóta upp? Var hann að reyna að rífa húsið niður til að byggja glerkubb en átti bara eitt verkfæri?

Þó svefninn hafi verið draumlaus þá var tilfinningin góð. Eitthvað hafði hugurinn verið að bauka á meðan hún svaf, eitthvað sem skildi eftir hlýja tilfinningu um allan líkamann. Hún kúrði sig ofan í sængina, neitaði að opna augun, og reyndi að kalla fram hvað það var sem gerði hana svona mjúka í sálinni, en það síðasta sem hún mundi voru fyrstu orðin í svefnhugleiðslunni sem hún þurfti til að geta fengið frið í nokkra tíma. Hvað gerðist í millitíðinni myndi hún aldrei vita.

Borhljóðið hætti. 3, 2, 1… kona á hælum gekk framhjá, byrsti sig í símann. Það var aldrei þögn í meira en nokkrar sekúndur, jafnvel þó hún byggi ekki einu sinni við Laugaveg eða Hverfisgötu. Að einhver á skrifstofunni skuli hafa vogað sér að koma svona fram við konuna í hælunum, hún var ekki sátt og ætlaði sko sannarlega með þetta lengra. Konan í hælunum stoppaði við endann á húsinu og kveikti sér í sígarettu og í gegnum fyrstu, nikótinfylltu innöndunina sór hún þess eið að fara aldrei aftur niður á þetta fífl á bakvið skrifborðið. Nú væri þetta búið.

Það besta og versta við svona símtöl var að fá aldrei að vita endann. Myndi þessi kona í hælunum og með rauða varalitinn í svörtu dragtinni (ímyndaði hún sér) standa við stóru orðin? Hvað var það sem fíflið gerði henni? Áður en hún vissi af var hún komin með söguna af stað í hausnum á sér; annað hvort þeirra var örugglega gift, líklega hann. Eða bæði. Hann elskaði hana örugglega meira en hún hann, konan í hælunum var bara að þessu til að skemmta sér. En hann hafði líklega meiri völd í fyrirtækinu og einhver ákvörðun hjá hákörlunum hafði komið illa við hana, hátt setta en samt lægra setta en hann. Hún yrði komin á hnéin áður en vinnudagurinn væri úti, því eftir allt launaði hann alltaf greiðann og þegar maður er jafn stressaður og konan í hælunum þá er fátt betra en að gleyma eitt augnablik að veröldin snýst ekki í kringum leynilegt ástarsamband á skrifstofu.

Fjórir menntaskólakrakkar stöðvuðu bílinn sinn beint fyrir utan, rúlluðu niður rúðunum og reyktu. Enginn þeirra nennti í tíma, enginn hafði lært fyrir prófið, allir ætluðu að reyna að komast inn á einhvern skemmtistað á fölsuðum skilríkjum, blindfokkingblekuð, í kvöld. Já alveg rétt, það var föstudagur. Var ekki eitthvað á planinu í dag? Unglingarnir notuðu orð sem hún skildi ekki en hún náði samhenginu. Einhver stelpa sem ein þeirra þekkti hafði farið í sleik við einhvern strák sem önnur þeirra var skotin í á einhverju balli í öðrum skóla, og strákurinn í framsætinu var að reyna að sannfæra þær báðar um að þessi gaur væri algjört fífl. Ó elsku menntaskólaár. Hún hló næstum upphátt þegar ein stelpan hnussaði að hún hlakkaði til að losna úr þessu barnalega menntaskóladeitlífi og verða fullorðin. Elsku barn, það breytist ekkert.

Þögn. Lengri en venjulega. Bæði kostur og galli, friðurinn er góður og að vera laus við borhljóðið (hann hefur farið inn til að laga sér kaffi til að fá orku til að halda áfram hægu niðurrifi geðheilsu hennar) var kærkomið. En með þögn kemur meira rúm til að muna. Hún reyndi að einbeita sér að því að hafa augun lokuð, ekki alveg tilbúin í dagsbirtuna og lífið og tilveruna. Ýta burtu dagskránni sem var framundan, eða frekar ekki dagskránni. Þetta var svona dagur þar sem ekkert var að, en samt var hún bara einhvernveginn að bíða eftir að hann myndi líða, eins og eiginlega flestir aðrir dagar. Hún var ekki beint óhamingjusöm, eiginlega bara alls ekki, en henni leiddist. Lífið var… venjulegt. Ekki ómerkilegt en ekkert svo merkilegt heldur. Óvænt þriggja daga helgi (svo hún gæti unnið fyrir vinkonu sína næstu helgi á meðan hún færi til útlanda með nýja kærastanum sínum að taka myndir af kokteilum og bjórum og nýja kærastanum og láta alla vita að enginn þyrfti að hafa áhyggjur af þeim og að lífið væri gott með þessum) en ekkert plan. Engin partí, ekkert ferðalag, engin vinna. Bara hversdagurinn.

Hún þakkaði fyrir flugvélina sem flaug örugglega aðeins of lágt beint fyrir ofan og hrissti timbrið í þakinu fyrir ofan hana. Hávaðinn drekkti hugsununum sem hún var ekki tilbúin að taka á móti. Flugvélarnar voru reglubundnar, þó margir í þeim væru það ekki. Það góða og slæma var hversu fljótt drunurnar dóu út.

En vinur hennar með borinn var búinn með kaffið og kominn aftur út. Og hann var kominn með vin úr hinni áttinni sem var í bakgarðinum með keðjusög. Kannski ætti hún að fara að vinna í húsinu, smíða eitthvað, brjóta eitthvað, standa í bakgarðinum í skítugum fötum með vinnuhanska, mold í andlitinu og sveittann topp og vinna að einhverju sem hefði tilgang þar til það var búið en myndi svo standa í stofunni um ókomna tíð, aðeins valtara en það þyrfti að vera enda var hún enginn smiður.

Keðjusögin söng í stuttum hvellum. Kona gekk fram hjá með kerru og öskrandi barn, hún reyndi að róa það með ussi og sussi og spurningum um hvað þau ættu að gera eftir leikskólann og æi gerðu það róaðu þig. Löng vinnuvika fyrir aumingja barnið og einn dagur eftir fyrir helgarfrí, sem er svo rómantísk hugmynd en þýddi fjörtíuogátta tíma af því að skemmta barninu. Biturðin skein kannski í gegnum þessa hugsun hjá henni, helgin yrði örugglega skemmtileg hjá þeim tveimur í náttfatapartí fyrir hádegi með ávexti í bolla og seríos á gólfinu.

Lífið fyrir utan gluggann gekk alltaf sinn vanagang. Allt var samt við sig, framkvæmdirnar, unglingarnir, konan í hælunum.

Hún opnaði augun og leit í áttina að glugganum. Sólin hafði fundið einu litlu rifuna á lélegu pappírsgardínunum hennar til þess að skína beint framan í hana. Hún sneri sér við og tók andköf. Úps. Já. Alveg rétt. Hún var víst ekki ein og minningin um svefnhugleiðsluna hafði verið frá því fyrir nokkrum kvöldum. Gerðist þetta ekki bara í bíómyndum? Hún hafði oft velt fyrir sér hvernig fólk gat bara gleymt því að einhver væri í rúminu hjá þeim, en einhverstaðar var afneitunin greinilega sterk. Hún velti því fyrir sér hvort að ef hún myndi gera kaffi, það myndi hvetja hann til að vakna og fara eða hvort hann héldi að það væri boð um að hanga. Væri það samt það slæmt?

Reykingalykt lagði inn um gluggann. Hún var löngu hætt að kippa sér upp við það og taldi það bara hluta af því að búa þar sem hún bjó. Einhver saug upp í nefið. Haustkvefið eða grátur? Síminn hjá þeim hringdi en reykingarmanneskjan leyfði honum að hringja út.

Keðjusögin söng í stuttum hvellum og hún neyddi sig til að stara í flókann á hnakkanum á gestinum í rúminu, sambland af samfarahnakka og svefnhnakka. Hann var með síðara hár en hún, það kitlaði hana næstum því í framan þar sem hún lá og reyndi að snerta hann ekki. Hvort væri verra að hann svæfi áfram eða vaknaði? Hann myndi vakna á endanum, þau myndu spjalla vandræðalega saman þar til annað þeirra segði jæja og kæmi með misuppgerða afsökun til að halda áfram út í daginn án hvors annars. Hann hætti að anda í smá og tók svo andköf stuttu seinna og það fór um hann hrollur. Hún lokaði augunum hratt, eins og það væri verið að standa hana að verki við eitthvað sem hún mætti ekki gera. Hvort sem það var hún eða hann sem væri að standa hana að verki vissi hún ekki og hún færði einbeitinguna aftur út um gluggann. Konan… eða kona í hælum gekk framhjá. Líklega ekki sú sama. Í fjarska heyrði hún í skólabjöllu, sem gladdi hana því þá yrði smá erill og hún gæti annað hvort horfið inn í heim unglinga sem hötuðu latínu og elskuðu hvort annað í laumi eða vonað að það myndi vekja hann.

3, 2, 1… fokkings Díana hafði fokkað upp fokkings prófinu, fokk. Hvernig gekk þér? Sambland af reykingarlykt og sætum ávaxtailmi gervireykinga liðaðist inn um gluggann. Hún bjó nógu langt frá til þess að þau gætu reykt þarna en nógu stutt frá til þess að þau þyrftu ekki að hlaupa til að ná næsta tíma. Hún hafði sjálf oft reykt fyrir utan þennan glugga fyrir aðeins of mörgum árum síðan. Ætli Díana yrði sú næsta til að búa þarna, liggjandi með glóandi augljóst bil á milli sín og einhvers annars að hlusta á kynslóðir framtíðarinnar kvarta undan smáforritum sem var ekki einu sinni búið að finna upp?

Hann hóstaði og henni brá, og hún sneri sér aftur að glugganum. Sólargeislinn hafði færst svo hún var ekki blinduð. Hún sá óljósa skugga standa fyrir utan, hlæjandi að einhverjum heimskulegum brandara sem hún hafði misst af. Hann sneri sér líka við.

Og bauð góðan morgun. Hönd laumaðist yfir síðuna á henni og hann færði sig nær. Hvað varð um að fara bara strax um nóttina þegar gamanið var búið? Af hverju þurftu þeir alltaf að gista núorðið? Kannski hafði það eitthvað með aldurinn að gera. Hann var samt hlýr og mjúkur og þægilegur. Það var eiginlega það versta, það allra allra versta. Eiginlega ósjálfrátt færði hún sig nær á móti honum. Djöfullinn. Honum hafði ekki verið boðið í eitthvað kúr.

Eina lausnin var kaffi. Hún settist upp aðeins of hratt; kaffi?, greip verstu samsetningu af flíkum sem hún hefði getað teygt sig í og hvarf fram til að búa til kaffi. Lífið fyrir utan gluggann fjarlægðist en borinn og keðjusögin náðu að smjúga inn í öll herbergin. Á meðan kaffivélin malaði fór hún að stofuglugganum, sem var við hliðina á svefnherbergisglugganum hennar og leit út. Hún heyrði hann brasa í næsta herbergi við að finna spjarirnar sem höfðu flogið út um allt nóttina áður, hún vissi að hann yrði lengi að finna annan sokkinn sem hún vissi að hafði einhvernveginn náð að lenda á bakvið sjónvarpið og þau höfðu hlegið að því í örstutta stund áður en hann nálgaðist hana með blik í augunum sem var sambland af gini, gúrku og losta.

Hún leit yfir í garð keðjusagarans. Hún hafði oft horft þarna yfir en þrátt fyrir að hafa starað hafði hún aldrei séð. Í örvæntingafullri tilraun til að hundsa tilveru mannsins hinu megin við stofuvegginn hennar skoðaði hún girðingu nágrannans eins og hún væri áhugaverðasta girðing sem hafði nokkurntíma verið hent saman. Hún var fullkomlega amerísk, svona hvítmáluð, lítil viðargirðing sem var eiginlega mest bara skraut, því hundur nágrannans hefði auðveldlega getað hoppað yfir hana ef hann vildi. Hundurinn var á vappi í garðinum með einhverskonar kjötstykki í kjaftinum. Hún sá í rassinn á nágrannanum handan við aftara horn hússins, greinilega einbeittur að smíðaævintýrum sínum. Hún leit aftur á hundinn, kjötbitinn hans var mjög blóðugur. Hann hvarf eitt augnablik og sneri aftur með stærra, blóðugra kjötstykki. Hvað ætli þetta sé? Hvað var maðurinn að saga niður þarna í bakgarðinum, naut, hreindýr?

Hvað ætli konu nágrannans fyndist, var henni alveg sama svo lengi sem hún fengi kjöt á grillið? Hver sagar samt niður naut í bakgarðinum sínum á föstudagsmorgni í október? Hún reyndi að muna hvort hún vissi eitthvað um þetta fólk. Konan hans var eins og konan í hælunum, alltaf smart, alltaf fullkomin. Ekki eitt einasta hár var ekki vandlega sett niður nákvæmlega þar sem það átti að vera, það var ekki krumpa á einni einustu flík, ekki rykkorn, ekki einu sinni rigningardropi á skónum hennar sama hvernig viðraði. Það var eins og náttúruöflin reyndu að nálgast hana en elegant framkoma hennar burstaði þau burtu eins og ímynduðu flösuna sem löngu, vel snyrtu, fallega bleiku neglurnar hennar gerðu á öxl eiginmannsins þegar þau stóðu fyrir utan að bíða eftir taxa fyrir eitt af mörgum galakvöldum sem þau greinilega fóru á.

Allt í einu, aðeins of hratt, aðeins of mikið og aðeins of greinilega fókusaði hún á það sem hundurinn lá nú í framgarðinum og nagaði. Giftingarhringurinn var ennþá á fallegu bleiku nöglunum.

Leave a comment